Ég er svo miklu meira en bara kvíðinn sem hefur fylgt mér síðan ég man eftir mér, hann er bara lítill hluti af mér og hann hefur mótað mig í að verða sú manneskja sem ég er í dag. Kvíði er bara tilfinning, jú hann getur orðið eins og snjóflóð þegar hann fær að rúlla um og yfirtaka tilveruna en þegar öllu er á botninn hvolft er hann samt bara tilfinning.
Kvíðinn hvolfist yfir þegar ég missi trú á sjálfri mér, þegar ég tel mig ekki geta, ekki vera nóg. Þegar ég hreinlega trúi ekki að ég muni geta staðið með mér. Hann byrjar í maganum, ólgar innan í mér, andardrátturinn verður grynnri og örari og hausinn fyllist af þúsund hugsunum um allt það sem er að, allt það sem ég get ekki, allt það versta sem gæti gerst. Ég ríf mig niður í mola fyrir að vera enn hér, fyrir að vera ekki komin lengra, fyrir að ég muni aldrei losna við hann.
Mig langar að hlaupa, ég get ekki setið kyrr og ég reyni að finna allar mögulegar leiðir til að losna undan honum, hringi í alla þá sem gætu gefið mér ráð eða skilið mig, tala við mömmu sem hefur alltaf verið með mér í þessum rússibana.
En sama hvert ég leita, sama hvaða númer ég hringi í – það hefur engin töfralausnina, því að eini staðurinn sem hana er að finna er hjá mér, innan í mér. Ég get ekki hlaupið undan sjálfri mér, ég get ekki hlaupið í fang neins. Ég þarf að vera til staðar fyrir mig. Ég þarf að takast á við þetta sjálf, þótt allir sem ég elska standi alltaf þétt við bakið á mér.
Í mörg ár lagði ég mig mikið fram um að fá fólk til að skilja kvíðann minn, skilja mína upplifun og setja sig í mín spor. Ég opnaði mig um kvíðann og hrósaði sjálfri mér fyrir að tala um jafn mikilvæg málefni og andlega sjúkdóma. Ég var með sjúkdóm, ég bar ekki ábyrgð, ég var frjáls. Ég var með fullkomna afsökun fyrir því að vera sú sem ég er. Ég gat sleppt því að mæta á æfingu eða fara í vinnuna, ef ég var slæm, því ég var með kvíðaröskun, geðsjúkdóm. En mér leið ekkert betur, ég var enn á flótta. Ég var enn að láta tilfinningu stjórna lífi mínu, ég var enn að láta kvíðann skilgreina hver ég var.
Ég fór til sálfræðinga, geðlækna til að finna lausnir, fór á lyf sem hjálpuðu mér (sem ég er enn að taka inn). En ég var enn bara að leita að leiðum til að komast undan kvíðanum, sleppa. Ég lærði hugræna atferlismeðferð svo ég gæti „drepið“ kvíðann í fæðingu – stoppað ósjálfráðu hugsanirnar og ef hann kæmist í gegn, að ég gæti „leikið“ á hugann minn með því að spyrja mig: „Hvað er það versta sem gæti gerst?“ (mín upplifun) En í miðju kvíðakasti er rökhugsunin ekki verkfæri sem ég get notað til þess að líða betur, því ég veit vel að það er ekkert til að vera kvíðin yfir, ekkert rökrétt við þetta ástand.
Sálfræðingurinn bað mig vikulega að rifja upp aðstæður þar sem kvíðinn gaus upp og hún þurfti ekki að gefa mér nein svör, því ég vissi þau öll. Ég kunni öll trixin (eftir að hafa "barist" við kvíða í svona mörg ár), ég vissi alveg hvað ég átti að gera í þessum aðstæðum en það var bara ekki nóg. Kvíðinn hélt áfram að koma.
Mér leið eins og ég væri með tösku fulla af skotfærum til að berjast við kvíðann, en eina sem það gaf mér var meira vonleysi. Vonleysi yfir að það væri ekki einu sinni nóg. Vonleysi yfir að vita betur, vonleysi um að kunna öll svörin en geta svo ekki notað þau þegar ég hólminn væri komið. Líf mitt snérist ennþá bara um að stilla lyfjaskammtinn og bæta byssum í verkfærakassann. Ég var enn „bara“ manneskjan með kvíðaröskunina rétt eins og ég var barn sem fór fyrst að sofa svo að aðrir sofnuðu ekki á undan mér eða svaf heima því ég þorði ekki að sofa annarsstaðar. Ég var enn að flýja kvíðann og finna leiðir til að bæla hann.
Þegar ég kynntist þerapíunni lærðu að elska þig og fór að vinna verkefnin í þerapíunni kynntist ég nýjum hliðum á sjálfri mér. Ég fór að skoða styrkleika mína, hrósa mér fyrir það hversdagslega. Lærði að sjá hluti í umhverfinu mínu sem ég elskaði, vanda hugsanir mínar og tjáningu. Ég lærði að tengjast þakklætinu, lærði að sjá alla sem mér hafði ekki samið við, sem kennara. Kennara sem spegluðu mig og sýndu mér hluti í eigin fari, sem ég gat bætt.
Ég fékk stjórnina, ég fékk víðsýnina til að sjá meira og hætta að tilgreina mig bara sem manneskju með kvíðaröskun. Ég sá að ég hafði notað kvíðan sem hækju til að forðast sjálfa mig, flýja sjálfa mig. Þegar ég fór að leiðbeina öðrum í þerapíunni sá ég að með kvíðanum hafði ég afl, afl til að skilja betur tilfinningar annarra, afl til að hjálpa öðrum að takast á við sínar tilfinningar, afl til að hjálpa öðrum.
En óöryggið, sem hefur verið stór hluti af mínu lífi er eitthvað sem ég mun sennilega vinna í alla mína ævi. Að vera ekki nóg, að aðrir séu betri en ég skýtur reglulega upp kollinum innra með mér, að finnast ég ekki tilheyra. Þá spilar spólan gamla „slagara“, rifjar upp augnablik til að staðfesta þessa trú mína á mér.
En í stað þess að flýja færi ég mig yfir í þakklætið. Þakklætið fyrir að hafa tilfinningar, þakklæti fyrir að viðkvæmni mín sé í raun næmni sem ég geti notað til að vaxa og hjálpa öðrum að vaxa
Comments